
Hvað er línudans?
Góð hreyfing fyrir alla!
Byrjendadansar í línudansi eru léttir og einfaldir og á allra færi að læra og stunda. Það þýðir þó ekki að það fáist ekki góð hreyfing útúr þeim. Nemendur mínir hafa oft haft orð á því að þeir hafi ekki búist við að svitna í línudanstíma því þeir væru að stunda líkamsrækt reglulega. En þegar heilinn og líkaminn eru að vinna samtímis í takt við tónlist hefur það mjög góð áhrif á brennslu hjá öllum og það er vel þekkt og rannsakað að línudans bætir t.d. bæði samhæfingu og minni.
Línudans, Line dancing eða Country dancing á ensku, er oft kenndur við Bandaríska sveitatónlist (e. Country music) og á sér langa hefð. Talið er að sum sporin komi frá dönsum innflytjenda frá Evrópu á 18. öld. Þessi dansstíll er flokkaður sem félagsdans (social dancing e.) og löng hefð er fyrir því að hann sé stundaður á börum í Bandaríkjunum.
Línudansar eru einstaklingsdansar og því enginn ákveðinn dansfélagi eins og t.d. í samkvæmisdönsum, heldur dansar allur hópurinn saman. Línudansar hafa þróast mikið í gegnum tíðina með tískubylgjum í dansi og tónlist og fengið spor að láni frá fjölmörgum dansstílum og eru því mjög fjölbreyttir.
Í dag eru margir línudansar samdir og dansaðir við popptónlist og stundum fátt sem skilgreinir þá annað en formið. Formið á línudansi er þannig að þeir eru ávallt stutt rútína sem snýst að öðrum vegg á einhverjum tímapunkti og er síðan endurtekin og færist þannig hringinn á dansgólfinu, vegg fyrir vegg. Þetta er einmitt það sem gerir línudansinn svo skemmtilegan því hann er samvinna hópsins.
Komdu og vertu með, þú sérð ekki eftir því. Við höfum öll gott af því að kíkja út fyrir þægindarammann öðru hvoru og gera eitthvað alveg nýtt. Síðan er svo fyndið og skemmtilegt að kljást við að læra línudans að það er hreinlega ávanabindandi fyrir marga. 🤠
Viltu lesa um 5 atriði í viðbót um línudans sem gætu komið þér á óvart. Smelltu hér.