
Línudansskólinn og Félag íslenskra línudansara taka höndum saman og kynna línudans á Menningarnótt
Share
Línudans er á mikilli uppleið um allan heim og sífellt fleiri á Íslandi stunda hann sér til skemmtunar og líkamsræktar.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að vinsældir kántrítónlistar hafa aukist mikið að undanförnu og með kántrítónlist fylgir oft línudans. Um þessar mundir er t.d. algengt að kántrítónlistarmenn gefi út dans samhliða nýju lagi í von um að hann nái vinsældum á samfélagsmiðlum og auki þannig vinsældir lagsins. Línudans er þó ekki eingöngu dansaður við kántrí, heldur við alls konar tónlist — m.a. vinsæla popptónlist.
Einkenni línudans er að hann er saminn sem stutt dansrútína sem er endurtekin aftur og aftur, en snýr í nýja átt í hvert skipti áður en hún er endurtekin. Þetta er einmitt það sem gerir línudansinn að skemmtilegu samvinnuverkefni hópsins. Línudans er einstaklingsdans, það þarf því ekki dansfélaga því hópurinn dansar saman.
Nú ætla Línudansskólinn og Félag íslenskra línudansara að taka höndum saman og kynna línudansmenningu í Reykjavík fyrir gestum Menningarnætur, laugardaginn 23. ágúst kl. 14:15 á Ingólfstorgi, og bjóða gestum að prófa.
Flashmob línudans ársins verður sýndur og þátttakendum síðan boðið að taka þátt og læra lauflétta byrjendadansa. Einfalt, auðvelt og skemmtilegt — allir geta tekið þátt.
Komdu og prófaðu línudans með okkur
Við lofum að þetta verður létt, skemmtilegt og nægilega auðvelt fyrir algjöra byrjendur. Skemmtilegur viðburður fyrir fjölskyldur og vini til að taka þátt og prófa eitthvað nýtt saman.
Sjáumst á Menningarnótt!