
Línudans: Hvernig verður maður góður fljótt?
Share
Ég fékk þessa spurningu um daginn, hvernig verður maður góður fljótt í línudansi og er búin að vera að hugsa um svarið síðan. Ég kom nýverið heim frá Nashville Dance Fest þar sem ég upplifði að dansa línudans með fólki á öllum skalanum frá algjörum byrjendum upp í heimsmeistara í línudansi. Það sem hitti mig svo sterkt var að sjá gleðina og tjáninguna alls staðar við völd hjá öllum hópunum sem er fyrsta boðorð KickStart Country línudansþjálfara, að byggja á dansgleðinni. Þetta skilur mig eftir með hugleiðingar um hverju mig langar mest að miðla í byrjendatímum hjá mér í línudansi og hvað gerir fólk að góðum dönsurum.
1. Fyrst - Hvað er best að forðast
Það sem ég hef séð í línudansi í gegnum árin er að fókusinn á að ná sporunum verður stundum svo mikill að það gleymist næstum að þetta er dans sem snýst fyrst og fremst um að tjá tilfinninguna sem tónlistin kveikir hjá manni. Ef fókusinn á að ná dönsunum hefur allt vægið í stað þess að tjá tónlistina með líkamanum er hætta á að dansstíllinn verði svolítið vélrænn og sviplaus.
2. Dansa eins og enginn sé að horfa
Ég held að skýringin á því hvers vegna upplifunin af því að dansa línudans í Bandaríkjunum er svo ólík því sem ég hef séð í Evrópu felist í því að nánast allir kynnast línudansi fyrst á barnum í USA en ekki í dansskóla. Þegar þú ert á gólfinu á skemmtistað eða inni í stofu heima hjá þér er miklu eðlislægara að byrja á því að dilla sér í takt við tónlistina og finna hvernig líkamanum langar að hreyfa sig við hana fremur en að fara að stíga einhver ákveðin spor. Dansa eins og enginn sé að horfa hljómar eins og klisja en þær eru víst til af ástæðu.
3. Ekki setja sporin í fyrsta sæti
Það er heilmikill munur á því að horfa á fólk stíga spor eða að vera að tjá tónlistina með líkamanum. Ef við lærum dans eins og vélmenni, að þá verða jú allir samtaka en perónuleikinn okkar týnist. Dans er bestur sem samtal á milli líkamans og lagsins sem dansað er við. Það er þar sem gleðin brýst út og persónuleikinn þinn fær að skína í gegn.
4. Lykillinn er að taka sig ekki alvarlega
Þess vegna er svo mikilvægt að brosa, hlægja og taka þessu ekki alvarlega. Leika sér og setja smá „ég“ í hreyfingarnar. Það skiptir engu máli þótt maður ruglist oft. Það er nefnilega miklu erfiðara að ætla að aflæra það seinna ef maður hefur tamið sér að vera grafalvarlegur og einbeittur á sporin.
5. Allir geta lært sporin
Ég segi alltaf það geti allir lært línudans og það er satt. Með nægilegri æfingu og endurtekningu verða sporin að lokum töm hjá öllum. En að þora að sleppa sér aðeins og hafa húmor fyrir sjálfum sér er enn mikilvægara. Fílingurinn kemur þegar þú hefur ekki áhyggjur af því að gera mistök og setur svolítið af sjálfum þér og þínu „grúvi“ í dansinn og þorir að dansa eins og þú sért heima með sjálfum þér.
6. Góðir línudansarar gera mistök og gera það töff
Í Nashville tók ég m.a. nokkra danstíma þar sem eingöngu mjög reyndir kennarar og dansarar voru nemendur í tímunum. Það var svo ótrúlega flott að sjá að þegar þau gleymdu sporunum í dansinum sem við vorum að læra að þá gerðu þau bara eitthvað einfalt eins og hliðar saman hliðar eða dilluðu mjöðmum eða eitthvað álíka þangað til þau komust þangað í dansinum að þau mundu hvað kom næst... þau gerðu þetta bara feimnislaust með töffarastælum og stóru brosi svo allir í kring höfðu gaman af „showinu“.
7. Dansgólfið er partý
KickStart Country nálgunin í línudanskennslu segir að línudans eigi að spretta frá gleðinni en ekki vera verkefni til að leysa eins og stærðfræðidæmi og því er ég hjartanlega sammála. Þetta snýst um samveruna og skemmtunina. Það eru augnablikin þegar fólk fer að hlæja þegar allt fer í steik eða allir klappa eftir að hópurinn nær að komast nokkurn veginn í gegnum nýjan dans sem er svo nærandi orka og gera línudans þess virði að stunda hann.
Að lokum - Það má ruglast og gera fullt, fullt af mistökum!
Þegar maður er að byrja að læra línudans er lang best að slaka á kröfunum til sín. Ekki stressa þig yfir því að klúðra sporunum. Finndu taktinn og hvernig hreyfingar passa þér. Leyfðu þér að gera fullt, fullt af mistökum og lifðu þig inn í að hreyfa þig við tónlistina. Sporin koma með æfingunni en það sem skín alltaf skærast er þegar það sést að fólk er að dansa af innlifun og fíling og skemmta sér vel, það er það sem gerir fólk að góðum línudönsurum í mínum augum.